HUNDALÍF

Tyra 003Ég var yfirlýstur andstæðingur hundahalds í þéttbýli um áratugaskeið, eða þar til á mánudaginn var. Þá kom 10 mánaða hvolpur í fangið á mér, border collie, og ég var um leið fallin kona.

Ég sótti dýrið á Dýraspítalann, þangað sem hann hafði komið í endanlegum tilgangi, en fyrir tilviljun kom í mínar hendur þar. Ég fékk hálsól og tvenns konar taum, hringsnérist með dýrið í styttri taumnum og ráfaði út, tautandi einhver þakkarorð.

Í dyrunum mættum við risastórum og úfnum hundi, hef ekki þekkingu á tegundum en það dýr líktist lögregluhundinum Rex í útliti, þ.e. þegar Rex var í ham. Týra mín skalf svo af ótta að ég bar við að taka hana í fangið en sá mitt óvænna og togaði dýrið mitt út.

Það skipti engum togum, Týra hljóp upp í bílinn, settist í bílstjórasætið og mér datt í hug hvort tíkin mín hefi bílpróf? Með erfiðismunum tókst mér að troða greyinu í farþegasætið og við ókum heim. Týra er greinilega vön að aka um í bíl, hugsaði ég.

Síðan hefur líf mitt breyst mjög, sennilega til batnaðar. Amk. var að því stefnt að fá sér lifandi göngutæki, því ég nenni ekki að standa á fætur eftir kvöldmatinn og ganga út í vorloftið. Þarf eitthvað meira til. Ég hélt og er að vona að Týra muni koma mér út kvölds og morgna í göngutúra.

Sú von hefur ekki brugðist, Týra hefur heldur betur haldið mér gangandi. Þetta er smalahundur og þarf mikla útivist. Ég neita því ekki að hæfileikum hennar væri betur varið í sveitinni innan um fé og annan búsmala, því hún er greinilega mikill veiðihundur og flink í að reka hjörð barnabarna minna fram og aftur um pallinn hjá syni mínum í Þorlákshöfn.

En þegar maður fer að lifa "hundalífi" opnast glænýr heimur fyrir manni. Á gönguferðum með hundinn sinn hittir maður fjölda hundaeigenda í sömu erindagjörðum. Venjan er að stoppa og taka smá spjall um hundinn sinn og viðmælandans. Reyndir hundaeigendur eru ósparir á góð ráð. Dýrin þefa af hvort öðru og kynnast, með viðeigandi hundalátum. Og hundaeigendurnir gæta sameiginlegra hagsmuna sinna í samfélaginu.

En, um leið uppgötvar maður hve lítið er gert ráð fyrir hundum í þéttbýlinu. Maður fer ekki með hundinn sinn í verslanir, ekki á heilsugæslustöðina, ekki í hvaða hús sem er. Og hvergi er gert ráð fyrir afgirtu opnu svæði fyrir hundaeigendur til að leyfa þeim að hlaupa frjálsum.

Í mínu hverfi er hundur í öðru hverju húsi. Stundum eru þessir ræflar bundnir úti við staura, en annars eru þeir ekki úti nema þegar verið er að viðra þá.

 

 


Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Linda

Til hamingju með göngu félagann, ég á einn slíkan og hef átt hunda á mörg ár, og get með sönnu sagt að ég væri sjálfsagt dauð, ef ég hefði ekki haft þá til að fara út og hreyfa mig á röltinu með þeim.  Hundurinn minn gefur mér andlega og líkamlega uppörvun svo að ég lokist ekki alveg inni hjá mér vegna veikinda, hvílík blessun. 

kv.

Linda, 26.3.2008 kl. 13:47

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband