Þrá handtöku, þrá hasar - þurfa auglýsingu

Mótmælendurnir óttast þöggun, því þeir flæða ekki yfir allar forsíður og taka ekki lengur alla fréttatímana. Væri þeim ekki nær að fara að líta í glósubækurnar sínar og byrja að lesa fyrir prófin sín??

Sturla þráir hasar, bíður eftir gasinu og handtöku í kjölfarið. Hörður Torfa skipar sjálfan sig dómara og hlýtur uppreisn æru, maðurinn sem áður flúði land. Einelti er ekki gott, það veit Hörður Torfa manna best. Hann ætti því síst allra  að standa og kasta grjóti úr glerhúsi.


Lengist í biðinni

Það bætir nú ekki skaðann að biðjast afsökunar. En einhvern veginn virkar það mannlegt að geta beygt sig og beðist fyrirgefningar.

Ég er ennþá að bíða eftir að þessir íslensku bankastjórar biðjist afsökunar. Biðjist afsökunar fyrir að hafa logið að okkur í mörg ár, afsökunar á að  hafa hagrætt afkomuspám, afsökunar á að hafa keypt besta fólkið frá Fjármálaeftirlitinu til að vinna í eigin þágu, afsökunar á að hafa sent sína snjöllu hag- og lögspekinga á fundi FME og hækkað blóðþrýsting þeirra svo þeir sátu eldrauðir og bláir fyrir framan fulltrúa FME og sögðu svart vera hvítt.

Það bætir ekki skaðann.  En virkar minna hrokafullt en glannalegar og fokdýrar ævintýraferðir um suður-heimsskautið, eða til annarra endalaust fjarlægra staða... til að baða sig í erlendum peningum og fyrri frægðarljóma.


mbl.is Bankastjórar biðjast afsökunar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mannamál - tær íslensk tunga

Loksins talar maður með þekkingu, skýrt og greinilega, svo hvert mannsbarn skilur.
Eða telst flugfreyjupróf nægileg hagvísindi til að leiða íslenska þjóð úr háska, eða hvað??  


mbl.is Davíð segir ekki af sér
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Frjálslyndi flokkurinn....í beinni

Hlustaði á Hallgrím Thorst í morgun, þar sem hann ræddi við Magnús Þór og Guðjón, forystumenn Frjálslynda flokksins. Lét mér detta í hug að hringja og leggja fyrir þá spurningu, en þar sem ég var að keyra austur fyrir fjall, þá lét ég það ógert.

En, fyrst stjórnarandstæðingar kvarta undan skorti á fjölmiðlaumfjöllun á málefnum sínum og málflutningi á Alþingi, hvers vegna reyna þeir ekki að halda úti fjölmiðli?? Meina, dagblaði? Er það bara Jón Ásgeir sem hefur aðgang að auglýsingamarkaðinum til að halda úti dagblaði? Þarf virkilega heilan her af starfsmönnum til að gefa út málgagn? Má ekki komast af með nokkra, jafnvel bara einn eða tvo menn, sem bæði sinna skrifum og auglýsingaöflun? Og er prentkostnaðurinn svo óyfirstíganlegur? Erum við, skattborgararnir ekki að styrkja flokkana um miljónir, á miljónir ofan? Gætu þeir ekki nýtt sér hluta þessa fjár til útgáfustarfa?

Hefði nefnilega haldið að núna væri tíminn til að bretta upp ermar, og blása til útgáfu. Ég segi nú fyrir mig.... ég sakna gömlu blaðanna (vitandi að þau voru málgögn flokkanna og litu sannleikann sínum augum). Tíminn, Alþýðublaðið, Þjóðviljinn..... það eru nefnilega ekki allir svo vel heima í netheimum.


Lestarsamgöngur á suðvesturhorninu...

Las mér til ánægju að borgarráð Reykjavíkur hefði samþykkt að leggja fram 10 millj. til að kanna "hagkvæmni og fýsileika" þess að koma á slíkum samgöngum milli Keflavíkur og Reykjavíkur enda komi ríkisvaldið með annað eins fjármagn á móti. Gott mál.

Við Íslendingar erum orðnir svo háðir bílum að við hreyfum okkur ekki milli húsa nema akandi. Samgöngukerfið er löngu brostið, það ber ekki alla þessa bíla.

Þegar menn eru að reikna kostnað við að koma á rafdrifnum lestum milli staða á suðvesturhorninu, gleymist algerlega að taka með í kostnaðinn við bílismann bílastæðafjöldann, sem eru bæði plássfrek og taka dýrmæt landsvæði, og svo hitt að gerð bílastæðis er kostnaðarsamt. Um þetta var áhugaverður þáttur í útvarpinu í vetur, og vakti mig til umhugsunar um eiginlegan kostnað við að halda úti almannasamgöngukerfi sem nánast enginn notar lengur. Ég játa að ég hef ekki séð tölur yfir fjölda farþega með strætó eftir að nemendum á ýmsum skólastigum bauðst að nota kerfið ókeypis, en geri ekki ráð fyrir að fjölgunin sé svo verulega mikil, amk. ekki miðað við þann fjölda sem situr í strætó þegar ég mæti þeim á hundarölti mínu. Kostnaðurinn við almannasamgöngur á höfuðborgarsvæðinu er gríðarlegur og sýnist sitt hverri sveitarstjórninni sem að kerfinu standa.

Lest milli Mjóddar og Keflavíkur myndi tvímælalaust verða mikil samgöngubót og líklega myndi stór hópur fólks hætta að aka suður í Keflavík til að fara í flug. Sömuleiðis væri það liður í að leggja af Reykjavíkurflugvöllinn að koma á tíðum og hröðum samgöngum milli Keflavíkur og höfuðborgarsvæðisins.

Kópavogsbúar, sem eru fjölmennasta sveitarfélagið í landinu að Reykjavík undanskilinni, hafa t.d. ekki notið rútusamganga við Keflavík, því rútan stoppar í Garðabæ, en ekki í Kópavogi, og ekur hún þó í gegnum Kópavog...! Ég hef því tekið þann kostinn að fara úr rútunni í Garðabæ og tekið leigubíl þaðan heim í Kópavog. En þetta er nú útúrdúr, áfram með lestarumræðuna.

Þegar teinninn væri kominn í Mjóddina, mætti hugsa sér tengingu niður á Umferðarstöð, eða vestur í bæ þess vegna annars vegar, og svo hins vegar suður í Þorlákshöfn, áfram í Hveragerði og á Selfoss. Ég er fullviss um að margur sumarbústaðareigandinn myndi geta hugsað sér að ferðast á milli Suðurlandsins og höfuðborgarinnar í lest. Á sléttlendinu á Suðurlandinu mætti hugsa sér að koma upp hjólreiðastígum og við líkt og Kínverjarnir og Danirnir ferðuðumst á hjólum styttri vegalengdir og lengri. 

Heimsóknir og skreppitúrar austur fyrir fjall myndu verða miklu minna mál, taka skemmri tíma og við myndum ekki telja eftir okkur að labba milli húsa á Selfossi, eða í Þorlákshöfn, vegalengdir þar eru ekki svo miklar að óyfirstíganlegt sé að fara á fæti frá lestarstöð í hús.

Ég fagna þessari umræðu og hlakka til að heyra og sjá hana þróast.


ANDLÁT Í STÓRFJÖLSKYLDUNNI

Hún ömmusystir mín er látin í hárri elli, hefði orðið 100 ára í ágúst hefði hún lifað. Ég þekkti hana sem "gamla" konu. Þegar ég kynntist henni lítil stelpa, þá var hún um sextugt og búsett á Sólvallagötunni. Þegar ég fluttist í vesturbæinn áratugum síðar, þá mætti ég henni stundum á Hofsvallagötunni, þegar hún var á leiðinni í eða úr Vesturbæjarlauginni. Eitt skipti tókum við tal saman. Þá sagði hún mér frá því að hún væri nú eiginlega búin að lifa sjálfa sig af... hún hefði tekist á við alla þá helstu og skæðustu sjúkdóma, krabbamein þar með talið, og lifað það allt af. Hún þakkaði batann og góða heilsu sundferðum sínum í Vesturbæjarlaugina. Þá var Lauga frænka rúmlega áttærð.

Það var ekki fyrr en ég las minningargreinarnar um hana í Mogganum í morgun að ég áttaði mig á að þetta var sú frænka móður minnar sem tók hana í sveit hér um og uppúr 1930. Þetta er konan sem bjó í Geirshlíðarkoti. Ég vissi ekki heldur að hún hefði alið öll sín manndómsár í Borgarnesi, þar til hún missti mann sinn þá rétt um fertugt. Ég þekkti Laugu bara sem ömmusystur mína vestur í bæ.

En, svo dó önnur kona í fjölskyldunni, ekki alveg eins gömul. Hún var ekkjan hans Pálma í Hagkaup, en Pálmi, eins og móðir mín, voru systrabörn. Þannig er hún Lauga frænka móðursystir Pálma í Hagkaup. Og nú verða þessar konur jarðsungnar í dag, önnur kl. 13:00 og hin kl. 16:00.

Það lýsir ekki mikilli samvinnu að koma sér ekki saman um að flýta eða fresta annarri hvorri jarðarförinni!  En við sem tilheyrum stórfjölskyldunni verðum  semsagt svartklædd frá hádegi til kvölds og ökum á milli kirkna.

Kannski er þetta gert til að spara sér tíma og ljúka þessu öllu af á einum degi? Ef svo er, þá er tímaleysi okkar Íslendinga gengið út í öfgar....


HUNDAHALD Í ÞÉTTBÝLI

Sem nýbakaður hundaeigandi vakna ég á morgnana undir þeim félagslega þrýstingi sem Týra beitir mig, með lágværu ýlfri og óróleika. Týra vill út! Og ég fer á fætur, klæði mig vel og tek hundinn út í göngutúr.

Svo göngum við af stað. Núorðið þekki ég allvel helstu gönguleiðir um hverfið okkar og nýti mér opið svæði við Kópavogslækinn til lengri göngutúranna. Týra er vel uppalin hvolpur og veit að hundar gera þarfir sínar utandyra. Og eins og dyggðugum hundaeiganda sæmir, eru hundapokar í öllum vösum flíspeysa og útiflíka heimilisins. Samviskusamlega hirði ég öll þau stykki sem Týra skilar af sér og set í ruslið. Og nú hefur bæst við heilmikil þekking á mataræði hunda, þurrfóðri sem er í uppáhaldi og annað sem Týra fúlsar við. Stykkin sem Týra skilar eru í nákvæmu samræmi við neyslu hennar.

Því var það þegar barnabörnin tóku upp á því að fóðra hana á sætindum og brauði, þá gerði létt hægðatregða vart við sig og því fylgdi fleiri og lengri göngutúrar til að ganga þau mál í lag.

Á heimleið úr einum göngutúrnum með Týru var ég rétt stigin í hundaskít, á bláhorninu heima. Og enginn smálort... eins og fullvaxinn karlmaður hefði hægt sér þarna úti á horni. Eftir að hafa gengið framhjá þessum úrgangi tvo daga í röð, lét ég mig hafa það að beygja mig eftir þessu og hirða það upp, enda með pokana í öllum vösum núorðið. En, mig stórundrar hegðun einstaka hundaeigenda sem skilja úrgang dýra sinna eftir á gangstéttum, já jafnvel í tröppum og við útidyr ókunnugra húsa!


HUNDALÍF

Tyra 003Ég var yfirlýstur andstæðingur hundahalds í þéttbýli um áratugaskeið, eða þar til á mánudaginn var. Þá kom 10 mánaða hvolpur í fangið á mér, border collie, og ég var um leið fallin kona.

Ég sótti dýrið á Dýraspítalann, þangað sem hann hafði komið í endanlegum tilgangi, en fyrir tilviljun kom í mínar hendur þar. Ég fékk hálsól og tvenns konar taum, hringsnérist með dýrið í styttri taumnum og ráfaði út, tautandi einhver þakkarorð.

Í dyrunum mættum við risastórum og úfnum hundi, hef ekki þekkingu á tegundum en það dýr líktist lögregluhundinum Rex í útliti, þ.e. þegar Rex var í ham. Týra mín skalf svo af ótta að ég bar við að taka hana í fangið en sá mitt óvænna og togaði dýrið mitt út.

Það skipti engum togum, Týra hljóp upp í bílinn, settist í bílstjórasætið og mér datt í hug hvort tíkin mín hefi bílpróf? Með erfiðismunum tókst mér að troða greyinu í farþegasætið og við ókum heim. Týra er greinilega vön að aka um í bíl, hugsaði ég.

Síðan hefur líf mitt breyst mjög, sennilega til batnaðar. Amk. var að því stefnt að fá sér lifandi göngutæki, því ég nenni ekki að standa á fætur eftir kvöldmatinn og ganga út í vorloftið. Þarf eitthvað meira til. Ég hélt og er að vona að Týra muni koma mér út kvölds og morgna í göngutúra.

Sú von hefur ekki brugðist, Týra hefur heldur betur haldið mér gangandi. Þetta er smalahundur og þarf mikla útivist. Ég neita því ekki að hæfileikum hennar væri betur varið í sveitinni innan um fé og annan búsmala, því hún er greinilega mikill veiðihundur og flink í að reka hjörð barnabarna minna fram og aftur um pallinn hjá syni mínum í Þorlákshöfn.

En þegar maður fer að lifa "hundalífi" opnast glænýr heimur fyrir manni. Á gönguferðum með hundinn sinn hittir maður fjölda hundaeigenda í sömu erindagjörðum. Venjan er að stoppa og taka smá spjall um hundinn sinn og viðmælandans. Reyndir hundaeigendur eru ósparir á góð ráð. Dýrin þefa af hvort öðru og kynnast, með viðeigandi hundalátum. Og hundaeigendurnir gæta sameiginlegra hagsmuna sinna í samfélaginu.

En, um leið uppgötvar maður hve lítið er gert ráð fyrir hundum í þéttbýlinu. Maður fer ekki með hundinn sinn í verslanir, ekki á heilsugæslustöðina, ekki í hvaða hús sem er. Og hvergi er gert ráð fyrir afgirtu opnu svæði fyrir hundaeigendur til að leyfa þeim að hlaupa frjálsum.

Í mínu hverfi er hundur í öðru hverju húsi. Stundum eru þessir ræflar bundnir úti við staura, en annars eru þeir ekki úti nema þegar verið er að viðra þá.

 

 


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband